Handbolti

Lið KA/Þórs getur í dag orðið það tólfta í sögunni til að fagna Íslandsmeistaratitli

Sindri Sverrisson skrifar
Það má búast við að hart verði tekist á að Hlíðarenda í dag og Íslandsmeistarabikarinn gæti farið á loft.
Það má búast við að hart verði tekist á að Hlíðarenda í dag og Íslandsmeistarabikarinn gæti farið á loft. vísir/Hulda Margrét

Deildarmeistarar KA/Þórs geta í dag orðið tólfta félagið frá upphafi til að fagna Íslandsmeistaratitli í handbolta kvenna, með sigri á Val.

Fyrir þremur árum vann KA/Þór sér sæti í efstu deild á ný með því að vinna Grill 66-deildina. Nú er liðið einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum eftir 24-21 sigur gegn Val í frábærri stemningu í KA-heimilinu á miðvikudag.

Liðin mætast að nýju á Hlíðarenda kl. 15.45, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, en með sigri geta Valskonur knúið fram oddaleik sem yrði í KA-heimilinu næsta miðvikudagskvöld. Vinni KA/Þór er einvíginu lokið og liðið Íslandmeistari í fyrsta sinn.

Valur er næstsigursælasta félagið í handbolta kvenna með 17 Íslandsmeistaratitla. Fram, sem Valur sló út í undanúrslitum, á flesta eða 22 talsins. Ármann vann sína 12 titla á árunum 1940-1963, en auk þeirra hafa Haukar (7), Stjarnan (7), ÍBV (4), FH (3), Víkingur (3), Grótta (2), KR (2) og Þróttur (1) unnið til Íslandsmeistaratitils.

KA/Þór getur í kvöld orðið fyrsta liðið utan höfuðborgarsvæðisins til að verða Íslandsmeistari í handbolta kvenna frá því að ÍBV varð meistari árið 2006. ÍBV er eina liðið utan höfuðborgarsvæðisins sem unnið hefur titilinn.

Takist Valskonum að vinna í dag er enn möguleiki á að Íslandsmeistarabikarinn verði áfram á Hlíðarenda en Valur er enn ríkjandi meistari eftir að hafa unnið árið 2019, þar sem að ekki tókst að leika úrslitakeppni í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Leikur Vals og KA/Þórs er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 15.45 en upphitun Seinni bylgjunnar hefst rúmum hálftíma fyrr og leikurinn verður svo gerður rækilega upp af sérfræðingum þáttarins strax og leiknum lýkur.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×