Körfubolti

Martin getur komust í lokaúrslitin í kvöld: „Góðan daginn, Hermannsson“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með Valencia liðinu í vetur.
Martin Hermannsson í leik með Valencia liðinu í vetur. Getty/Mike Kireev

Valencia og Real Madrid spila í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í lokaúrslitunum á móti Barcelona eða Lenovo Tenerife en staðan er 1-1 í báðum einvígum.

Oddaleikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport 2 og íslenskt körfuboltaáhugafólk fær því flottan körfuboltaleik á kvöldi þegar Domino's deildin er í fríi. Leikurinn fer fram á heimavelli Real Madrid og hefst klukkan 19.50 að íslenskum tíma.

Real Madrid vann fyrsta leikinn í einvíginu með ellefu stigum, 81-70, og deildarmeistararnir voru þá búnir að vinna þrjá fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni. Fyrsta tapið þeirra kom í síðasta leik.

Valencia liðið var ekki tilbúið að fara í sumarfrí og jafnaði metin í einvíginu með sannfærandi átján stiga sigri í leik tvö, 85-67. Þetta er annar oddaleikur Valencia í þessari úrslitakeppni og liðið er að fara spila sinn sjötta leik á ellefu dögum.

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson var mjög góður í öðrum leiknum á móti Real Madrid þar sem hann var með 9 stig og 5 stoðsendingar á aðeins sautján mínútum. Valencia vann með fimmtán stigum þegar Martin var inn á vellinum. Hann fékk líka eitt „Góðan daginn, Hermannsson“ á samfélagsmiðlum Valencia.

Martin var með 11 stig á 16 mínútum í fyrsta leiknun. Hann er því búinn að spila 33 mínútur í einvíginu og á þeim er íslenski landsliðsbakvörðurinn með 20 stig og 6 stoðsendingar sem er frábær tölfræði. Valencia er +19 með hann inn á vellinum en -12 með hann á bekknum.

Lið Real Madrid og Valencia þekkjst mjög vel enda hafa þau þegar mæst sjö sinnum á tímabilinu, í deildinni, í úrslitakeppninni og í Euroleage. Valencia hefur unnið fjóra af þessum sjö leikjum og sigur í kvöld myndi þýða að deildarmeistararnir væru úr leik.

  • Leikir Real Madrid og Valencia í vetur:
  • Euroleague 8. október: Valencia vann með 16 stigum (93-77)
  • Deildin 1. nóvember: Real Madrid vann með 8 stigum (86-78)
  • Konungsbikarinn 11. febrúar: Real Madrid vann með 11 stigum (85-74)
  • Euroleague 19. febrúar: Valencia vann með 11 stigum (89-78)
  • Deildin 9. maí: Valencia vann með 10 stigum (79-69)
  • Úrslitakeppnin 6. júní: Real Madrid vann með 11 stigum (81-70)
  • Úrslitakeppnin 8. júní: Valencia vann með 18 stigum (85-67)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×