Fótbolti

Brynjólfur Ander­sen lagði upp er Kristiansund endur­heimti topp­sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson spilaði seinustu mínúturnar í sigri Kristiansund í dag.
Brynjólfur Andersen Willumsson spilaði seinustu mínúturnar í sigri Kristiansund í dag. Peter Zador/DeFodi Images via Getty Image

Tveir leikir fóru fram í norksa fótboltanum í dag og í báðum þeirra voru Íslendingar í eldlínunni. Brynjólfur Andersen Willumsson og félagar í Kristiansund endurheimtu toppsætið með 2-0 sigri gegn Odd og Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord sem tapaði 3-1 gegn Molde.

Það gekk illa að brjóta ísinn í leik Kristiansund og Odd og var markalaust í hálfleik. Það var ekki fyrr en á 63.mínútu sem að heimamenn komu boltanum loksins í netið.

Þar var á ferðinni Sander Kartum eftir stoðsendingu frá Olaus Skarsem.

Brynjólfur Darri kom inn af varamannabekk Kristiansund á 74.mínútu leiksins og á fyrstu mínútu uppbótartíma lagði hann upp sigurmark Kristiansund fyrir Agon Mucolli.

Niðurstaðan 2-0 sigur Kristiansund og liðið á toppi norsku úrvalsdeildarinnar eftir sjö leiki með 15 stig.

Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord sem tók á móti Molde. Það tók leikmenn Molde aðeins þrjár mínútur að finna netmöskvanna, en þar var á ferðinni Kristoffer Haugen.

Haugen var svo aftur á ferðinni á 17.mínútu, en þó á hinum enda vallarins. Hann varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan því orðin jöfn.

Ohi Omoijuanfo endurheimti forystu gestanna á 60.mínútu og tíu mínútum seinna tryggði Kristoffer Haugen 3-1 sigur Molde.

Sandefjord er í næst neðsta sæti norsku deildarinnar með þrjú stig en Molde í því þriðja með 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×