Styrmir Snær Þrastarson hefur ekki aðeins stimplað sig inn í Domino's deildinni í vetur heldur en hann kominn í hóp bestu íslensku leikmanna deildarinnar.
Það hefur verið mikið látið með strákinn og ekki af ástæðulausu en hann hefur enn og aftur sýnt hvað er mikið spunnið í hann með frábærri frammistöðu sinni í úrslitakeppninni þar sem hann hefur hækkað sig bæði í stigum og framlagi frá því í deildarkeppninni.
Styrmir var þannig frábær í sínum fyrsta oddaleik á ferlinum þegar hann skilaði 21 stigi, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum í 18 stiga sigri á Stjörnunni, 92-74. Styrmir fiskaði 10 villur á Stjörnumenn og hitti ennfremur úr 10 af 11 vítaskotum.
Þessi frammistaða þýddi að táningurinn í Þórsliðinu endaði með hæsta framlag Þórsara í undanúrslitunum en hann og Adomas Drungilas voru jafnir með samtals 101 framlagsstig í leikjunum fimm eða 20,2 í leik.
Styrmir Snær Þrastarson var með 17,4 stig, 6,6 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í einvíginu. Hann fiskaði langflestar villur allra eða 5,8 í leik og tólf fleiri en næsti liðsfélagi hans.
Það sýnir kannski hversu yfirvegaður þessi ungi leikmaður er að hann nýtti 29 af af 33 vítaskotum sínum í einvíginu sem gerir 88 prósent vítanýtingu á undanúrslitasviðinu.
- Hæsta framlag Þórsara í undanúrslitaeinvíginu við Stjörnuna:
- 1. Styrmir Snær Þrastarson 101 framlagsstig (20,2 í leik)
- 1. Adomas Drungilas 101 (20,2)
- 3. Larry Thomas 92 (18,4)
- 4. Callum Reese Lawson 79 (15,8)
- 5. Halldór Garðar Hermannsson 44 (8,8)
- 6. Davíð Arnar Ágústsson 40 (8,0)
- 7. Ragnar Örn Bragason 29 (5,8)
- 8. Emil Karel Einarsson 24 (4,8)