Lögreglumönnum er nú samkvæmt reglugerð óheimilt að bera sýnileg merki eða húðflúr „sem almennt þykja til þess fallin að ýta undir mismunun eða öfgahyggju.“
Ef ágreiningur myndast um það hvað telst til slíkra merkja er það lögreglustjóra að meta það. Hann getur síðan skotið málum til ríkislögreglustjóra, segir í reglugerðinni.
Ný reglugerð var undirrituð í maí en í október í fyrra vakti það hörð viðbrögð þegar lögreglukona bar þrjá fána á búning sínum sem tengdir hafa verið við hatursorðræðu hvers konar. Sömu fánar höfðu verið notaðir af rasískum öfgasamtökum.
Áslaug Arna sagði þá að haturstákn yrðu ekki liðin innan lögreglunnar og að það væri lögreglumanna að vera meðvitaðir um að gefa ekki slík merki frá sér. Nú hefur hún breytt reglugerðinni svo að sérstaklega sé kveðið á um þetta, en í eldri reglugerð var ekki vikið að utanaðkomandi einkennismerkjum.
Önnur breyting í reglugerðinni er sú að lögreglumönnum er einfaldlega bannað að bera önnur merki og tákn en þau sem tilheyra almennum einkennisfatnaði þeirra.
Merkin á þeim einkennisfatnaði eru lögreglumerki eru á báðum ermum. Á baki og hægra megin á brjósti er merkið „Lögreglan“ en vinstra megin á brjósti merkið „Police“. Ríkislögreglustjóra er heimilt í sérstökum tilvikum að merkja einnig með merkinu „Police“ á baki. Endurskinsmerkingar eru heimilar.
Notkun annarra merkja eða tákna á einkennisfatnað eða búnað lögreglu er óheimil, nema sem heimiluð er sérstaklega skv. reglugerð þessari eða reglna settra af ríkislögreglustjóra, segir í reglugerðinni.
Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það.
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) October 22, 2020
Efsti fáninn á búning lögreglukonunnar er svarthvít útgáfa af íslenska fánanum með blárri línu sem hefur erlendis þótt taka pólitíska afstöðu með „blue lives matter“ hreyfingunni gegn „black lives matter“. Þannig hefur hann verið tengdur við hvíta þjóðernishyggju.
Þriðji fáninn er svokallaður Vínlandsfáni sem hefur verið tekinn upp af hvítum öfgahópum og nýnasistum. Höfuðkúpumerkið er þá „The Punisher“ sem er merki sem hefur verið notaður í samhengi við gróft ofbeldi í baráttunni gegn glæpum.