AP-fréttastofan segir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan bandaríska embættismannakerfisins. Segir ennfremur að lokið verði að kalla herinn heim að stærstum hluta á næstu vikum, en miðað hefur verið við dagsetninguna 11. september næstkomandi, að þá verði verkinu lokið.
Einnig er reiknað með að nokkur hundruð bandarískra hermanna verði eitthvað áfram á alþjóðaflugvellinum í Kabúl – mögulega fram í september – til að aðstoða tyrkneska herinn sem mun síðar hafa það verkefni að aðstoða afganska herinn að tryggja öryggi flugvallarins.
Staðan í Afganistan er sem stendur mjög viðkvæm, en eftir að Bandaríkin og önnur NATO-ríki tilkynntu að til stæði að kalla herliðið heim hafa sveitir talibana sótt fram víða í landinu og fjölgað árásum sínum.