Veður

Víða hæg­lætis­veður en þoka eða lág­skýjað framan af degi

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður fjórtán til 23 stig í dag.
Hiti á landinu verður fjórtán til 23 stig í dag. Vísir/Vilhelm

Landsmenn mega reikna með hæglætisveðri víða um landið í dag, en þoku eða lágskýjuðu framan af degi og gæti jafnvel haldast út daginn við sjávarsíðuna. Inn til landsins léttir til þegar líður á daginn og verður fallegasta veðrið þar sem sólin nær að bræða skýin af landinu.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings. Vestan átta og þrettán metrum á sekúndum syðst, annars hægari vindur. Hiti á landinu verður fjórtán til 23 stig í dag, hlýjast suðaustantil, en svalara á Vesturlandi og við norður og austurströndina.

„Svo er útlit fyrir að bæti í suðvestanáttina á þriðjudag og miðvikudag og þá verður klárlega besta veðrið norðaustantil á landinu þar sem hiti gæti náð 25 stigum báða dagana, en líklega væta á köflum og hiti 10 til 15 stig um landið vestanvert,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Gengur í sunnan og suðvestan 8-15 m/s. Súld eða dálítil rigning V-lands, hiti 10 til 15 stig. Léttskýjað um landið A-vert og hiti að 25 stigum, hlýjast NA-til.

Á miðvikudag: Suðvestan 8-13 og léttskýjað A-lands, en skýjað og súld með köflum V-til. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag: Suðvestlæg eða breytileg átt og skýjað á V-verðu landinu, en bjart veður eystra. Hiti 10 til 21 stig, hlýjast A-til.

Á föstudag, laugardag og sunnudag: Breytileg átt eða hafgola og bjart með köflum, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 10 til 23 stig, hlýjast í innsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×