Kjarninn greinir frá þessu í ítarlegu máli en Hörður á meðal annars fimm milljóna króna hlut í Arionbanka og eina milljón í Marel. Þá á hann einnig hlut í Kviku, Icelandair, Reitum og Brimi.
Skýrt er tilgreint í siðareglum BÍ að blaðamenn fjalli ekki um neitt það sem snýr beint að persónulegum hagsmunum þeirra. Í fimmtu grein segir: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.“
Í frétt Kjarnans er tilgreint að Hörður hafi hvergi sparað sig í að fjalla um félög sem hann á í en í samtali við miðilinn segir Hörður hlutabréfaeign sína óverulega og ekkert í siðareglum Fréttablaðsins kveði á um að starfsmenn eigi að upplýsa um eign sem þessa.
Vísir reyndi að ná í Jón Þórisson ritstjóra Fréttablaðsins með það fyrir augum að bera undir hann álitaefni í máli þessu en án árangurs. En í Kjarnanum segir hann í svari við fyrirspurn miðilsins að blaðamenn Fréttablaðsins skuli hafa siðareglur BÍ í heiðri.