Franskir vísindamenn birtu í dag niðurstöður rannsóknar þeirra í Nature en þær gefa í skyn að delta afbrigðið búi yfir getu til að komast hjá einhverjum mótefna sem myndast við bólusetningar og náttúrulegt smit. Að einn skammtur bóluefnis þar sem tveggja skammta er þörf, veiti litla vörn gegn afbrigðinu.
Vísindamennirnir segja þó að fullbólusett fólk, sem hafi fengið tvo skammta af bóluefnum Pfizer eða AstraZeneca, hafi góða vörn gegn afbrigðinu. Í frétt Washington Post segir að það sé í takt við niðurstöður bandarískra vísindamanna sem birtar voru í New England Journal of Medicine í gær.
Á Bretlandi tóku ráðamenn þá ákvörðun að leggja mesta áherslu á að koma einum skammti bóluefnis í sem flestar hendur eins fljótt og auðið er. Það kom niður á því hve margir fengu seinni skammta en samkvæmt Sky News hafa 45,6 milljónir fengið einn skammt og 34,2 milljónir hafa fengið tvo.
Nú er töluverð uppsveifla á faraldrinum þar í landi. Flestir nýsmitaðra hafa smitast af delta afbrigðinu. Þó einn skammtur af bóluefni dragi ekki mjög úr líkum þess að fólk smitist eru þó ummerki um að hann dragi verulega úr líkum á því að fólk veikist alvarlega eða þurfi jafnvel á sjúkrahús.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, opinberaði fyrr í vikunni að til stæði að fella niður allar sóttvarnir þar í Englandi þann 19. júlí.
Eðli málsins samkvæmt, aukast líkurnar á því að veiran stökkbreytist eftir því hve oftar hún smitast manna á milli og hafa vísindamenn og sérfræðingar áhyggjur af mögulegum nýjum afbrigðum sem gætu dreifst enn auðveldar og leitt til alvarlegri veikinda. Jafnvel er óttast að afbrigði gæti myndast sem þau bóluefni sem til eru hafi lítil áhrif á.
Skráð dauðsföll vegna Covid-19 eru nú komin yfir fjórar milljónir. Rúmt eitt og hálft ár er síðan faraldur nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19, hófst í Kína. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, gagnrýndi ríkari lönd heimsins harðlega á blaðamannafundi í gær.
Gagnrýni hans beindist að mestu að gífurlegum ójöfnuði í dreifingu bóluefnis á heimsvísu.