Þetta kemur fram í frétt Reuters fréttaveitunnar en þar er sögð saga flugmanns sem óttaðist svo að verða ráðinn af dögum að hann setti hús sitt á sölu og ætlaði sér að flytja í öruggara hverfi í Kabúl, höfuðborg Afganistans.
Flugmaðurinn, sem hét Dastagir Zamaray, fór fyrr á þessu ári til að hitta fasteignasalann sinn en í hans stað beið hans vopnaður maður á skrifstofunni. Sá sagði ekki orð en skaut Zamaray í höfuðið, fyrir framan fjórtán ára gamlan son hans.
Í samtali við blaðamann Reuters staðfesti Zabihullah Mujahid, talsmaður Talibana, að þeir hefðu myrt Zamaray og að unnið væri að því að drepa fleiri flugmenn því þeir gerðu loftárásir á eigið fólk.
Fram kemur þó í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem fréttaveitan vitnar í að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 229 almennir borgarar fallið í árásum Talíbana og 41 í loftárásum flughers Afganistans.
Hafa áhyggjur af árangri Talibana
Sókn Talibana í norðurhluta Afganistans og víðar hefur vakið áhyggjur víða og lýstu þeir því nýverið yfir að þeir stjórnuðu í raun 85 prósentum af landinu. Talsmaður Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði í dag að framgangur Talibana væri alvarlegur.
Í frétt Politico segir að á undanförnum vikum hafi Talibanar náð tökum á um tíu prósentum landsins og sérfræðingar segja þá stjórna 195 af 407 héruðum landsins að fullu. Barist er um 129 héruð til viðbótar.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hét því í gærkvöldi að allt það herlið sem kalla ætti frá Afganistan yrði komið heim fyrir 31. ágúst næstkomandi.
Meðal annars hafa Talibanar náð tökum á landamærum Afganistans við Íran og Túrkmenistan.
Iranian media have widely shared this video, reportedly showing Taliban fighters taking down the flag of Afghanistan at the Islam Qala border crossing. pic.twitter.com/2s1SBeOoTq
— Kian Sharifi (@KianSharifi) July 9, 2021