Leikurinn fór nokkuð rólega af stað, en það voru heimamenn í Sligo sem héldu boltanum betur. Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn sköpuðu þeir sér nokkur ágætis færi.
Þrátt fyrir það voru það FH-ingar sem voru fyrri til að finna netmöskvana. Vuk Oskar Dimitrijevictók þá aukaspyrnu utan af kanti sem Sligo menn náðu ekki að hreinsa almennilega frá. Boltinn datt fyrir fætur Steven Lennon sem kláraði færið vel og kom FH-ingum í forystu aðeins rétt rúmri mínútu fyrir hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar að Jónatan Ingi Jónsson krækti í vítaspyrnu fyrir FH-inga. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi sitt annað mark í leiknum, og það þriðja í einvíginu.
Leikmenn Sligo Rovers þurftu því þrjú mörk til að knýja fram framlengingu. Þeir sköpuðu sér nokkur hálffæri, en það var ekki fyrr en að tæpar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sem að dró til tíðinda.
Pétur Viðarsson braut þá af sér innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Johhny Kenny fór á punktinn og sendi Gunnar Nielsen í rangt horn.
Nær komust Sligo Rovers eftir og 2-1 sigur FH-inga því staðreynd. Með 1-0 sigrinum á heimavelli unnu þeir því samanlagt 3-1 og eru á leið í aðra umferð Sambandsdeildarinnar þar sem að þeir mæta norska stórveldinu Rosenborg.