Greene, sem er fulltrúadeildarþingkona fyrir Repúblikana, hefur talað mikið og opinberlega gegn bólusetningum og grímunotkun. Hún baðst opinberlega afsökunar fyrir það í síðasta mánuði að hafa borið grímuskyldu saman við meðferð Nasista í Þýskalandi á gyðingum.
Í gær tísti Greene tveimur tístum um það að bólusetningar við kórónuveirunni ættu ekki að vera skyldugar og að Covid væri ekki hættulegt fólki undir 65 ára, sem ekki væri of þungt.
Bæði tístin var enn hægt að sjá en Twitter hefur merkt tístin sem „villandi.“ Nú virðist vera sem Greene hafi eytt tístunum.
Twitter-aðgangi Greene hefur áður verið lokað tímabundið, í apríl síðastliðnum, en Twitter aflétti banninu og sagði það hafa verið mistök. Sjálfvirkt kerfi hafi lokað á aðganginn.
Greene sagði í gær að bannið væri tilraun fyrirtækja til að ráðast á rétt fólks til frjálsrar orðræðu með stuðningi Hvíta hússins.
„Þessi stóru tæknifyrirtæki vinna í þágu Biden-stjórnarinnar til að takmarka raddir okkar og koma í veg fyrir að skilaboð, sem ekki þóknast ráðandi öflum, líti dagsins ljós,“ sagði Greene við banninu í gær í samtali við New York Times.
Biden hvatti samfélagsmiðlafyrirtæki í síðustu viku til að taka virkari þátt í því að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta um kórónuveiruna og bólusetningu við henni.
Twitter hefur ítrekað lokað aðgöngum tímabundið sem notaðir eru til að dreifa falsfréttum og kynnti samfélagsmiðillinn nýjar reglur um slíka dreifingu í mars. Samkvæmt reglunum er aðgöngum lokað í tólf klukkustundir þegar reglur miðilsins eru brotnar í annað og þriðja sinn en með fjórða reglubrotinu tekur vikulöng lokun við. Með fimmta reglubroti er aðgangi lokað fyrir fullt og allt.