Læknasetrið er ein stærsta læknastöðin í Reykjavík. Þangað koma sjúklingar með lyflæknisfræðileg vandamál eins og til dæmis hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma og innkirtlasjúkdóma.
Verja viðkvæma hópa
„Þegar við sáum smittölur gærdagsins þá ákváðum við að grípa til þessara ráðstafana. Smittölur dagsins staðfestu það að við þurfum nú að verja viðkvæma hópa,“ segir Þórarinn Guðnason, einn stjórnenda Læknasetursins í samtali við fréttastofu.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur einnig gripið til aðgerða. Í gær tilkynntu þeir um grímuskyldu á læknavakt og slysa- og bráðamóttöku vegna fjölgunar smita.
Kári vill aðgerðir og það strax
Engar aðgerðir eru í gildi innanlands en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir íhugar nú hvort þörf sé á innanlandsaðgerðum. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í kvöldfréttum í gær að grípa þurfi strax til aðgerða innanlands.
Í gær greindust 56 einstaklingar innanlands með Covid-19. Er það mesti fjöldi á einum degi það sem af er þessu ári. Af þeim voru 43 fullbólusettir og tveir hálfbólusettir. 38 voru utan sóttkvíar við greiningu. Manneskja á sjötugsaldri hefur verið lögð inn á Landspítala vegna Covid-19 sjúkdómsins.