KR var með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar og hafði unnið átta af síðustu níu leikjum í deildinni. Gott gengi liðsins hélt áfram í kvöld með 4-1 sigri á HK að Meistaravöllum. KR er með 28 stig á toppi deildarinnar en HK er með níu stig í 8. sæti, aðeins stigi frá fallsæti.
Eini tapleikur KR í sumar kom gegn Augnabliki í fyrstu umferð en Augnablik hafði ekki unnið leik síðan þá, þar til í kvöld. Liðið vann 4-2 heimasigur á ÍA í Kópavogi og fór með honum af botni deildarinnar. Augnablik er með átta stig í næst neðsta sæti, fyrir ofan botnlið Grindavíkur vegna hagstæðari markatölu.
Grindavík tapaði 3-2 fyrir Haukum í Hafnarfirði í kvöld sem sendi liðið á botninn. Haukar fóru með þeim sigri upp í fjórða sæti með 15 stig.
Fyrir neðan Hauka eru Víkingur og Grótta með 13 stig í 5.-6. sæti. Bæði lið þurftu að þola slæm töp í kvöld. FH vann Gróttu 4-1 á Seltjarnarnesi og eru Hafnfirðingar með 23 stig í öðru sæti, fimm stigum á eftir toppliði KR.
Afturelding er í mikilli baráttu við FH um að komast upp úr deildinni og er aðeins stigi á eftir FH í þriðja sætinu í kjölfar 4-0 sigurs á Víkingum.