Löng röð hefur myndast við húsnæði heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut í dag líkt og síðustu daga. Fjöldi innanlandssýna hefur farið stigvaxandi samhliða aukningu í fjölda greindra smita.
Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að dagurinn hafi gengið vel fyrir sig þrátt fyrir mikið álag á starfsfólk. Mörg þeirra hafa ekki enn fengið tækifæri til að taka sér langþráð sumarleyfi.
Staðan komi ekki á óvart
„Við eigum alveg eftir þrjú korter og röðin er ansi löng,“ sagði hún í samtali við Vísi á fjórða tímanum í dag. „Við getum tekið ansi marga á þremur korterum.“
Hún bætir við að 1.700 til 1.800 hafi verið bókaðir í einkennasýnatöku og sóttkvíarskimun í dag en þá á eftir að taka skimun ferðamanna með inn í reikninginn. Heildartalan kemur ekki í ljós fyrr en síðar í dag.
Aðspurð um það hvort þessi hraða aukning í fjölda smita og sýnatöku nú þegar stærsti hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur komi henni í opna skjöldu segir Ingibjörg svo ekki vera.
„Þetta kom mér ekkert á óvart, ég var eiginlega bara að bíða eftir þessu. Við vinnum þetta bara áfram og byrjum aftur á því sem við þekkjum. Við erum alltaf að læra í leiðinni og vonandi náum við að stoppa bylgju.“