Heildarafkoma félagsins á tímabilinu var neikvæð um 14,5 milljónir króna. Heildartekjur drógust saman um tvö prósent á fyrstu sex mánuðum ársins og námu 6,7 milljörðum króna á tímabilinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þjónustutekjur félagsins jukust á tímabilinu um fimm prósent og námu 5,7 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam fjórtán milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins, samanborið við tap upp á um 965 milljónir króna fyrir sama tímabil í fyrra.
Launakostnaður minnkaði um 576 milljónir
Rekstrarkostnaður Valitor nam 2,4 milljörðum króna á tímabilinu og dróst saman um 1,2 milljarða á milli ára. Munar þar mestu um launakostnað sem dróst saman um tæpar 576 milljónir króna og annan rekstrarkostnað sem dróst saman um 553 milljónir króna.
„Ljóst er að aukin skilvirkni, samþætting grunnkerfa, hagræðingar í húsnæðismálum og aðrar hagræðingar er að skila sér í betri afkomu félagsins,“ segir í tilkynningunni. Rekstur Valitor er sagður vera í samræmi við væntingar og áætlanir stjórnanda og gerir rekstraráætlun félagsins ráð fyrir jákvæðri EBITDA á árinu 2021.
Valitor var selt til fjártæknifélagsins Rapyd þann 1. júlí síðastliðinn en salan bíður samþykkis frá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu. Söluverð Valitor nam 12,3 milljarða króna eða 100 milljónum bandaríkjadala. Eigið fé félagsins nam 7,3 milljörðum króna í lok júní.