Í samtali við Fréttablaðið segir Sigríður það ekki standast skoðun að það að beina samskiptum í gegnum miðlæga stýringu, líkt og fyrirmæli samskiptastjórans kveða á um, muni auka upplýsingaflæði til fjölmiðla.
Þvert á móti.
Fyrirmælin séu algjörlega úr takti við þá stefnu sem heilbrigðisstarfsfólk og sóttvarnayfirvöld hafi unnið eftir; það er að vinna með fjölmiðlum í miðlun upplýsinga í kórónuveirufaraldrinum.
„Þetta snýst alltaf um það að miðla upplýsingum og hvernig er hægt að gera það með sem bestum hætti. Því fyrr sem upplýsingafulltrúar skilja það því betra.“
Sigríður segir við Fréttablaðið að um sé að ræða enn eitt dæmið þar sem almannatenglar misskilja hlutverk sitt. „Það er sorglegt að sjá að maður í jafn mikilvægri stöðu á þessum tíma skilji ekki samband fjölmiðla og heilbrigðisstarfsfólks með betri hætti en þetta.“