Fyrr í sumar hvöttu stjórnendur landspítalans, heilbrigðisstarfsmenn til að mynda svokallaðar sumarkúlur vegna fjölgunar smitaðra. Nú hafa þeir verið beðnir um að koma fyrr úr sumarleyfum til þess að standa vaktina vegna manneklu og álags. Formaður félags hjúkrunarfræðinga segir heilbrigðisstarfsmenn þegar vinna mikla yfirvinnu vegna ástandsins og því sé ekki sjálfgefið að þeir stytti sumarfrí.
„Og þurfa jafnvel á sama tíma að einangra sig frá fjölskyldu og vinum og geta ekki tekið þátt í daglegu lífi til þess eins að geta stundað sína vinnu. Það er ekki sjálfgefið,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga.
Stjórnvöld funduðu með formönnum félaga hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraliða í morgun um þeirra sjónarmið og mat á stöðunni. Þar ítrekaði Guðbjörg nauðsyn þess að grípa til aðgerða innanlands vegna þungrar stöðu á spítalanum sem sé að einhverju leyti tilkomin vegna manneklu.

Hún segir að í byrjun sumars hafi vantað hjúkrunarfræðinga á allt að 200 vaktir á vissar legudeildir og um 450 vaktir á bráðamóttöku. Þá sé það staðreynd að inniliggjandi sjúklingur með Covid-19 þurfi tvöfalt meiri umönnun hjúkrunarfræðinga en aðrir almennir sjúklingar. Því þurfi sömu mönnun hjúkrunarfræðinga á deild fyrir 18 sjúklinga með Covid-19 og þarf fyrir 36 manna almenna deild.
„Ef við berum saman árið 2020 og 2021 sjáum við að það er 33% aukning á langtímaveikindum hjúkrunarfræðinga sem þurfa að leita til félagsins og það er gífurlega mikil aukning. Við höfum aldrei seð aðrar eins tölur.“