Það þýðir að Talibanar hafa lagt undir fjórar héraðshöfuðborgir Afganistans á einungis þremur dögum.
Þingmaður segir í samtali við AFP fréttaveituna að Talibanar hafi umkringt heila herdeild stjórnarhersins í útjaðri Sar-e-Pul. Vígamenn stjórni borginni.
#Kunduz Police HQ captured by #Taliban pic.twitter.com/AwIIcR2PH8
— C4H10FO2P (@markito0171) August 8, 2021
Fyrir Kunduz og Sar-e-Pul höfðu Talibanar einnig hernumið borgirnar Sheberghan og Zaranji. Þá eru bardagar sagðir eiga sérstað í borgunum Lashkar Gah og Kandahar í suðurhluta landsins.
Stjórnarher Afganistans og aðrar sveitir sem styðja ríkisstjórn landsins eiga í hörðum bardögum við Talibana víða um landið. Herinn er undir miklu álagi og hefur þurft að hörfa víða. Talibanar hafa lagt undir sig stóran hluta landsins samhliða því að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið flytja hermenn sína á brott.
Talibanar hafa haft yfirhöndina í dreifðri byggðum Afganistans og hefur stjórnarherinn að mestu haldið sig við það að verja héraðshöfuðborgirnar. Ríkisstjórn Afganistans hefur ekki tjáð sig um fall borganna enn, að öðru leyti en að segja að Talibanar verði brátt reknir á brott.
Sókn Talibana hefur þó dregið verulegan mátt úr stjórnarhernum og sveitum hliðhollum ríksstjórninni.
Nú um helgina hafa Bandaríkjamenn gert þó nokkrar loftárásir gegn Talibönum um helgina. Enn stendur þó til að ljúka alfarið brottflutningi bandarískra hersveita frá Afganistan í þessum mánuði.