Þetta kemur fram á Fótbolta.net en Bryndís Arna var í stuttu viðtali þar og fór yfir stöðu mála. Þar staðfesti hún að viðbeinið hefði brotnað í 2-1 sigri Fylkis á Keflavík í síðustu umferð. Fór það svo að Bryndís Arna skoraði bæði mörkin og tryggði Fylki lífsnauðsynlegan sigur. Var hún valin leikmaður umferðarinnar hjá Heimavellinum í kjölfarið.
„Bryndís Arna virðist vera komin í gang en hún skoraði bæði mörk Fylkis í kvöld í eins marks sigri. Bryndís yfirgaf völlinn þó sár kvalin en hún virðist hafa lent illa á öxlinni undir lok leiks. Vonandi fyrir Fylkiskonur þá verður hún ekki lengi frá leikvellinum,“ segir í leikskýrslu Vísis um sigurinn. Nú er ljóst að sóknarmaðurinn knái verður ekki meira með í sumar.
„Það er bara hvíld og recovery framundan. Það tekur allavegana sex vikur að gróa og svo er það að koma sér aftur í gang. Leikmaður Keflavíkur steig einhvern veginn fyrir mig og ég dett bara beint á viðbeinið,“ sagði Bryndís Arna við Fótbolta.net um meiðslin.
Sigur Fylkis á Keflavík lyfti liðinu upp úr fallsæti í fyrsta skipti í langan tíma. Liðið er með 12 stig, eini stigi meira en Tindastóll og tveimur meira en Keflavík þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.