Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu eru í samskiptum við fólkið og aðstoða það eftir föngum við að komast úr landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu. Þar segir að annars vegar sé um að ræða tvo íslenska ríkisborgara sem sinna störfum fyrir stofnanir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Unnið sé að því að flytja þá á brott með öðru liði Atlantshafsbandalagsins í landinu.
Hins vegar sé um að ræða hjón og börn þeirra sem eru með íslenskan ríkisborgararétt. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins eigi í samskiptum við aðrar borgaraþjónustur á Norðurlöndum um möguleika á að fjölskyldan komist úr landi ásamt öðrum norrænum borgurum.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að utanríkisþjónustan sé í beinum samskiptum við alla þessa aðila, fylgist grannt með framvindu mála í Afganistan. Aðstoð sé veitt eins og kostur er.
Utanríkisþjónustan er í beinum samskiptum við alla þessa aðila, fylgist grannt með framvindunni og veitir aðstoð eins og kostur er. Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Talibanar tóku höfuðborgina Kabúl í gær fljótlega eftir að Ashraf Ghani, forseti landsins, flúði land. Íslömsku öfgamennirnir hafa náð nær öllum völdum í landinu á innan við viku, á sama tíma og bandarískt og alþjóðlegt herlið hefur verið að kalla lið sitt frá landinu.
Mikil ringulreið hefur ríkt á alþjóðaflugvellinum í Kabúl eftir að Talibanar tóku völdin í Afganistan í gær. Þúsundir manna flykktust að flugvellinum í þeirri von að geta flúið land.