Mikil óreiða var á Kabúl-flugvelli í gær þar sem tugir þúsunda reyndu að komast úr landi og var flugvellinum lokað um tíma en var opnaður aftur í morgun.
AP segir frá því að Talibanar virðast nú vilja sýnast hógværari en áður. Þannig birtist kvenkynsfréttaþulur eftir tveggja daga hlé í sjónvarpi í gærkvöldi og átti viðtal við upplýsingafulltrúa þeirra.
Eldri íbúar landsins muna hins vegar eftir stjórnarháttum Talibana frá því á tíunda áratugnum þar til fyrir tuttugu árum.
Konur nutu lítilla sem engra réttinda og aflimanir og opinberar aftökur voru nánast daglegt brauð.
Engar fréttir hafa borist af ofbeldisverkum Talibana frá því þeir tóku völdin í Kabúl fyrir tveimur dögum en íbúar hafa haldið sig að mestu heima. Talibanar hafa tæmt fangelsin og rænt vopnabúr afganska hersins.