Segja má að komandi helgi geti skipt sköpum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn sem og í baráttunni um Evrópusæti. Breiðablik mætir KA, liðin sitja í 3. og 4. sæti deildarinnar, á Kópavogsvelli á laugardag. Degi síðar mætast toppliðin tvö Valur og Víkingur.
Breiðablik og KA getað þó hoppað upp fyrir Víking í töflunni takist þeim að næla í sigur á laugardag. Einnig eiga bæði lið leik til góða á toppliðin tvö. KA verður án miðvarðarins Dušan Brković í leiknum á Kópavogsvelli þar sem hann fékk rautt spjald gegn Stjörnunni í síðustu umferð.

Á sunnudeginum vantar töluvert fleiri leikmenn en alls verða fjórir leikmenn í banni. Hjá heimamönnum vantar hægri bakvörðinn Karl Friðleif Gunnarsson sem og miðjumanninn Júlíus Magnússon. Í lið Vals er er miðvörðurinn Rasmus Christiansen í leikbanni sem og miðjumaðurinn Birkir Heimisson.
Nikolaj Hansen, markahæsti leikmaður deildarinnar, fór meiddur af velli í 3-0 sigri Víkinga á Fylki og Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði liðsins, harkaði af sér til að klára leikinn. Víkingar gætu því verið án allt að fjögurra byrjunarliðsmanna þegar Íslandsmeistararnir koma í heimsókn.
Aðrir sem verða í leikbanni um helgina eru þeir Sindri Þór Guðmundsson (Keflavík), Atli Arnarson (HK), Heiðar Ægisson, Eyjólfur Héðinsson (báðir Stjarnan), Aron Kristófer Lárusson, Sindri Snær Magnússon, Wout Droste (allir ÍA) og Arnþór Ingi Kristinsson (KR).
Þar sem upp hefur komið smit í herbúðum KR er ekki enn ljóst hvort leikur ÍA og KR fari fram um helgina eður ei. Stórleikir helgarinnar verða hins vegar í beinni á Stöð 2 Sport.
Upphitun fyrir leik Breiðabliks og KA hefst klukkan 15.45 en leikurinn sjálfur klukkan 16.15. Á sunnudagskvöld hefst svo upphitun fyrir toppslaginn í Víkinni klukkan 18.45 og leikurinn sjálfur klukkan 19.15.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.