Utanríkisráðuneyti furstadæmanna segir að Ghani og fjölskylda hans hafi fengið hæli þar af mannúðarástæðum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ghani réttlætti ákvörðun sína um að flýja land með því að þannig væri hægt að forðast blóðbað í Kabúl.
Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Ghani hafi haft með sér mikið fé þegar hann yfirgaf Afganistan en þær hafa ekki verið staðfestar til þessa.
Rússneska sendiráðið í Kabúl hélt því fram á mánudag að þegar Ghani flúði hefði hann haft með sér fjórar bifreiðar og eina þyrlu fulla af peningum. AP-fréttastofan segist ekki hafa getað staðfest þær ásakanir en skýringar talsmanns rússneska sendiráðsins á uppruna þeirra voru loðnar.