Forsetinn sagði í viðtali hjá miðlinum ABC í dag að hann væri staðráðinn í því að koma öllum borgurum sínum frá landinu eftir valdatöku talibana.
Spurður hvort Bandaríkjamenn úti geti þá reiknað með að bandarískt herlið verði úti fram í september sagði Biden:
„Nei, Bandaríkjamenn verða að skilja að við erum að reyna að klára brottflutning allra fyrir 31. ágúst. Ef það verða enn bandarískir ríkisborgarar eftir þá verðum við að bíða og ná þeim öllum burtu.“
Óljóst er hvort þetta nái einnig til þeirra Afgana sem hafa unnið náið með Bandaríkjamönnum í stríðinu en Biden segist gera ráð fyrir því að um 50 til 65 þúsund Afganar séu að reyna að komast úr landi með fjölskyldur sínar. Til að hægt verði að koma þeim öllum burt fyrir lok mánaðar segir hann að Bandaríkjamenn verði að auka í ferðir sínar til og frá flugvellinum.
Hann var þá spurður í viðtalinu hvað hefði farið úrskeiðis á flugvellinum á mánudag þegar upplausn greip um sig. Um 640 Afganar tróðu sér þá til dæmis í C-17 herflutningavél Bandaríkjamanna sem ákváðu að taka á loft með þá um borð í stað þess að reyna að reka þá út. Einhverjir reyndu að hanga utan á vélinni en féllu til jarðar skömmu eftir flugtak og létu lífið.
„Ég held ekki að þetta hafi verið nein mistök,“ sagði Biden og bætti svo við síðar í viðtalinu þegar hann var spurður nánar út í þetta:
„Nei, ég held ekki að það hefði verið hægt að gera neitt betur þarna. Hugmyndin um að það hefði verið hægt að komast burt án þess að það gripi um sig ringulreið… ég sé ekki hvernig það hefði átt að gerast.“