Fótbolti

Tap í fyrsta leik Berglindar í Svíþjóð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Berglind Björg lék með Le Havre í Frakklandi áður en hún flutti til Svíþjóðar.
Berglind Björg lék með Le Havre í Frakklandi áður en hún flutti til Svíþjóðar.

Íslenska landsliðskonan Berglind Björg Þorvalsdóttir þreytti frumraun sína fyrir Hammarby í Svíþjóð er liðið tapaði 2-0 á heimavelli fyrir Eskiltuna United í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Berglind gekk nýverið í raðir Hammarby frá Le Havre í Frakklandi og byrjaði í framlínu Hammarby í dag. Eskiltuna kom í heimsókn til Stokkhólms en leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni um Evrópusæti.

Eskiltuna drap leikinn hins vegar snemma. Reynsluboltinn Mia Jalkerud, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið eftir skipti frá Arna/Björnar í Noregi, kom gestunum í forystu eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Hún hætti ekki þar og lagði upp annað mark fyrir Feliciu Rogic á 17. mínútu leiksins. Hammarby tókst ekki að vinna sér leið inn í leikinn og mörkin urðu ekki fleiri.

Eskiltuna vann 2-0 sigur og fer með honum upp fyrir Hammarby og Íslendingalið Kristianstad í töflunni. Eskiltuna er með 22 stig í þriðja sætinu en Hammarby og Kristianstad eru með 21 stig í fjórða og fimmta sæti.

Keppnin er hörð um sæti í Meistaradeild Evrópu að ári en efstu þrjú lið deildarinnar fara þangað.

Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×