Fótbolti

Grátleg byrjun hjá Sveini Aroni í Íslendingaslag - tap hjá Norrköping

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sveinn Aron og félagar misstu niður tveggja marka forskot í uppbótartíma gegn Jóni Guðna og félögum.
Sveinn Aron og félagar misstu niður tveggja marka forskot í uppbótartíma gegn Jóni Guðna og félögum. EPA-EFE/CHRISTIAN MERZ

Fjórir Íslendingar voru í eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði sinn fyrsta leik fyrir Elfsborg gerði 2-2 jafntefli við Hammarby og Íslendingalið Norrköping tapaði fyrir Halmstad.

Mörk Alexanders Bernhardsson og Jacob Ondrejka veittu Elfsborg 2-0 forystu í leik dagsins og þannig var staðan þegar Sveinn Aron kom inn af bekknum hjá liðinu í sínum fyrsta leik á 85. mínútu.

Elfsborgarar virðast hins vegar hafa hrunið í kjölfarið. Aljosa Matko minnkaði muninn fyrir Hammarby á 91. mínútu og þá jafnaði Abdul Khalil af vítapunktinum á 95. mínútu. Elfsborg missti því tveggja marka forystu niður í uppbótartíma og varð að gera jafntefli sér að góðu.

Jón Guðni Fjóluson spilaði allan leikinn fyrir lið Hammarby og fékk gult spjald á 66. mínútu. Hammarby, sem er stýrt af Milos Milojevic, fyrrum þjálfara Víkings, er með 24 stig í 5. sæti, sex stigum frá Elfsborg og AIK sem eru sætunum fyrir ofan. Elfsborg varð af tveimur mikilvægum stigum í toppbaráttunni, en liðið er þremur stigum á eftir toppliðum Djurgarden og Malmö.

Tap hjá Norrköping

Ísak Bergmann Jóhannesson og Ari Freyr Skúlason voru báðir í byrjunarliði Norrköping sem heimsótti Halmstad í dag. Halmstad byrjaði betur er Írakinn Amir Al-Ammari kom liðinu í forystu um miðjan fyrri hálfleik og 1-0 var staðan í hálfleik.

Ísaki Bergmann var skipt af velli á 63. mínútu en Ganamaðurinn Sadat Karim tvöfaldaði forystu Halmstad skömmu síðar, á 70. mínútu. Samuel Adegbenro frá Nígeríu minnkaði muninn fyrir gestina sjö mínútum síðar en Ara Frey var skipt út af á 84. mínútu er Norrköping freistaði þess að jafna.

Það tókst ekki og Halmstad vann 2-1 sigur. Halmstad er í 8. sæti með 20 stig, en Norrköping er með 23 stig í 6. sæti, stigi á eftir Hammarby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×