Lögregla á svæðinu segir að flestir þeirra sem enn er saknað hafi búið á svæðum þar sem vatn í ám óx hve hraðast í rigningunum.
Hrifsaði ungabörn úr fangi föður síns
Á meðal þeirra látnu eru tvö ungabörn, tvíburar sem flóðið hrifsaði úr fangi föður þeirra, að því er segir í frétt AP.

Flóðin skildu eftir sig gríðarmikið rusl og brak eftir ónýt hús og bíla víða um sveitir og bæi. Björgunarsveitir ganga nú hús úr húsi til að athuga með fólk og reyna að finna þá sem enn er saknað.
Aldrei mælst meiri rigning í fylkinu
Um 43 sentímetra rigning mældist í sýslunni síðasta sólarhring, sem er það mesta sem mælst hefur í Tennessee frá upphafi mælinga, átta sentímetrum meira en þann sólarhring sem áður var rigningamestur. Sá dagur var fyrir 39 árum síðan.
Úrhellið gerði það fljótlega að verkum að lækir, sem renna víða við hús og í gegn um einhverja bæi í sýslunni, breyttust í straumhörð fljót.

Veðurfræðingar sáu svo mikla rigningu ekki fyrir en flóðaviðvörun hafði verið send út þar sem varað var við 10 til 15 sentímetra rigningu. Í versta stormi sem hafði áður mælst á einmitt þessu svæði í miðju Tennessee-fylki hafði ekki mælst nema 23 sentímetra rigning. Rigningin í gær var næstum tvisvar sinnum meiri.
Veðurfræðingur á svæðinu sem fréttastofa AP ræddi við segir ómögulegt að komast að því hver þáttur loftslagsbreytinga af mannavöldum er í svo ofsafengnum stormi. Þetta sé þó í þriðja skiptið á einu ári þar sem stórflóð verður í fylkinu sem hún segir að eðlilegt væri að gera ráð fyrir á um hundrað ára fresti.