Félagið fundar með Isavia hjá ríkissáttasemjara í dag. Búist er við að sá fundur geti staðið langt fram á kvöld en FÍF hefur til klukkan fimm í nótt til að boða verkfallið. Deilan strandar á vinnutíma flugumferðarstjóra.
„Ég held að við verðum að hafa traust á þessum aðilum að lenda málinu því þetta er náttúrulega það síðasta sem ferðaþjónustan og flugiðnaðurinn og í raun og veru bara landið þarf í þessu Covid ástandi að það fari að bætast verkföll ofan í kaupið,“ segir Birgir í samtali við Vísi.
Hefði áhrif á morgunflug á þriðjudegi
Ef verkfallið verður boðað stendur það á milli klukkan fimm og tíu á þriðjudagsmorgun í næstu viku. Það hefði því áhrif á allt morgunflug.
„Það fellur í rauninni á dag sem hefur ekki stór áhrif á okkur og okkar áætlanir,“ segir Birgir. „Við erum með brottfarir seinna á þessum degi en á þessum verkfallstíma sem vinnustöðvunin tekur til.
Það sem þetta gerir fyrst og fremst er að skapa enn þá meiri óvissu um ferðalög og það eru óskýrar reglur nú þegar. Það er kaos í flugstöðinni núna á hverjum einasta degi þannig þetta er alls ekki það sem við þurfum.“
Skoða frekari verkfallsaðgerðir
Arnar Hjálmsson, formaður FÍF, sagði við Vísi í gærkvöldi að félagið myndi funda með trúnaðarráði í dag til að skoða möguleikann á því að láta félagsmenn greiða atkvæði um frekari verkfallsaðgerðir á næstunni.
„Ég held að allir hljóti að hafa áhyggjur af því. Því eins og ég segi þá er þetta það síðasta sem við þurfum núna og ég held að samningsaðilar verði að taka það inn í myndina að þetta er svo miklu stærra mál en þessi tiltekna deila því þetta getur haft mikla röskun á allri ferðaþjónustu og öllu flugi til og frá landinu, sem er auðvitað bara hið versta mál,“ segir Birgir.