Takmarkaðar fregnir hafa borist af sprengingunni sem varð barninu að bana og ekki er ljóst hvort að hún tengist loftárás Bandaríkjahers. Breska ríkisútvarpið BBC segir að mikill hvellur hafi heyrst við flugvöllinn sem var vettvangur blóðbaðs á fimmtudag þegar liðsmaður Ríkis íslams sprengdi sig í loft upp og varð um 180 manns að bana.
AP-fréttastofan hefur eftir Rashid, lögreglustjóra í Kabúl, að eldflaugin hafi lent á byggingu í hverfi í nágrenni flugvallarins og að barn hafi látið lífið.
Bandaríkjaher svaraði hryðjuverkaárásinni á fimmtudag með því að fella tvo liðsmenn Ríkis íslams í drónaárás á aðfaranótt laugardags. Í kjölfarið vöruðu bandarísk yfirvöld við því að hætta væri á frekari hryðjuverkum í Kabúl á meðan Bandaríkin og aðrar vestrænar þjóðir ljúka brottflutningi fólks.
Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildum sínum innan Bandaríkjastjórnar að önnur hernaðaraðgerð hafi átt sér stað gegn liðsmönnum Ríkis íslams í dag, að þessu sinni í Kabúl.
Talsmaður talibana fullyrðir að Bandaríkjaher hafi stöðvað sjálfsmorðsárásarmann í farartæki sem hafi ætlað að ráðast á flugvöllinn. Bifreiðin hafi verið full að sprengiefni.