Nokkuð var um óvænt úrslit. Ber þar helst að nefna 2-1 útisigur Stjörnunnar á Íslandsmeisturum Vals, 7-0 sigur Breiðabliks í Árbænum og seiglusigur HK í Kórnum.
Lof
Einar Karl Ingvarsson
Miðjumaðurinn fær hrós fyrir að segja Hilmar Árni Halldórssyni að hlaupa yfir boltann er þeir stilltu boltanum upp í aukaspyrnu gegn Íslandsmeisturunum og fyrrum liðsfélögum Einars. Hann þrumaði knettinum svo í netið og lagði grunn að góðum sigri Stjörnunnar.
Sóknarleikur Breiðabliks
Hvernig er hægt að taka einhvern einn leikmann út fyrir sviga þegar lið skorar sjö mörk? Allir leikmenn liðsins voru frábærir og ljóst að pressan er ekki enn farin að segja til sín í toppbaráttunni. Sérstakt hrós fær Höskuldur Gunnlaugsson fyrir glæsimark sitt en hann þakkaði Guðmundi Benediktssyni, fyrrum þjálfara sínum, fyrir markið.
Ingvar Jónsson
Eftir að hafa setið á varamannabekknum framan af sumri er Ingvar Jónsson kominn aftur í mark Víkinga og hann var hreint út sagt stórkostlegur í 2-1 sigrinum á FH. Hann bjargaði gestunum nokkuð oft og tryggði þennan gríðarlega mikilvæga sigur í toppbaráttunni.
Varnarlína Víkinga á einnig hrós skilið en Halldór Smári Sigurðsson bjargaði á línu og Kári Árnason stóð fyrir sínu þegar þess þurfti.
Varamaðurinn Kristinn Jónsson
Kristinn Jónsson hefur verið byrjunarliðsmaður í liði KR undanfarin misseri. Hann var á bekknum gegn Leikni Reykjavík þar sem hann hefur verið veikur og var ekki klár í að spila heilan leik. Svo virðist sem það hlutverk henti Kristni ágætlega en hann kom inn af bekknum og skoraði bæði mörk KR í 2-1 sigri á Leikni Reykjavík.
Það sem meira er, bæði mörkin skoraði hann með hægri fæti.
Last
Valsmenn að falla á prófinu
Ekki beint last en Íslandsmeistarar Vals vissu að þeir yrðu að vinna Stjörnuna til að eiga góða möguleika á að vinna titilinn annað árið í röð. Það tókst þeim ekki og það að fá á sig mark eftir hornspyrnu þegar skammt er til leiksloka er ekki boðlegt fyrir lið sem er að reyna vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Marley Blair
Þá deila um hversu harkalega Marley Blair, leikmaður Keflavíkur, slengdi hendinni í Ásgeir Börk Ásgeirsson, leikmann HK. Staðreyndin er hins vegar sú að Blair slengdi hendinni í áttina að Ásgeiri og þar við situr. Rautt spjald niðurstaðan og Keflavík var manni færri í 70 mínútur. Liðið var næstum búið að hanga á stiginu en allt kom fyrir ekki.
Reynsluboltar Fylkis
Ólafur Kristófer Helgason hefur vissulega átt betri daga í marki Fylkis en þegar liðið tapaði 0-7 fyrir Blikum. Að henda ungum og óreyndum markverði undir rútuna er hins vegar ekki í boði. Varnarleikur liðsins var bókstaflega enginn og þarf þurfa reynslumeiri leikmenn liðsins að líta í eigin barm.
Fylkisliðið er með reynslumikla vörn sem á einfaldlega að gera betur. Burt séð frá því hvort Ólafur Kristófer hafi átt að gera betur í tveimur eða þremur mörkum Blika í leiknum.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.