Hraðpróf, sem fólk gerir á sjálfu sér, eru að sögn sóttvarnalæknis yfirleitt gæðaminni en þau sem framkvæmd eru af þjálfuðum aðilum. Næmi sjálfsprófa sé oft minna en annarra hraðprófa sem þýði að verulegur líkur séu á neikvæðri niðurstöðu þrátt fyrir að einstaklingur sé smitaður af Covid-19.
Áreiðanlegustu prófin séu enn PCR-próf en allir sem eru í sóttkví þurfa að fara í slíka sýnatöku áður en sóttkví á að ljúka.
„Sóttvarnalæknir mælir ekki með notkun sjálfsprófa að svo stöddu, sérstaklega í ljósi þess að aðgengi að öðrum hraðprófum og PCR prófum er gott hér á landi,“ segir í tilkynningu á vef embættis landlæknis.