Kolbeinn braut gegn Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur haustið 2017. Hún kærði leikmanninn sem á endanum baðst afsökunar og greiddi Þórhildi miskabætur. Þórhildur Gyða sagði sögu sína í kvöldfréttum RÚV á fimmtudaginn vegna ummæla Guðna Bergssonar, þáverandi formanns KSÍ, um að ekkert kynferðisofbeldismál hefði komið inn á borð KSÍ með formlegum hætti.
Í samtali við Aftonbladet segir Henrik Jurelius, íþróttastjóri AIK, að fréttirnar um ofbeldisbrot Kolbeins hafi komið sér í opna skjöldu. RÚV fjallar um málið.
„Þetta eru nýjar fréttir fyrir okkur hjá AIK, bæði fyrir mig og forvera minn í starfi, Björn Wesström. Við ræddum við KSÍ og fyrrverandi félög hans en fengum engar upplýsingar um þetta,“ sagði Jurelius.
Kolbeinn skrifaði undir samning við AIK í mars 2019. Á tveimur tímabilum hjá félaginu lék hann 44 leiki og skoraði fjögur mörk.
Kolbeinn samdi við Gautaborg í lok janúar á þessu ári. Í gær sendi félagið frá sér yfirlýsingu vegna brota Kolbeins. Þar er hegðun hans fordæmd.
Gautaborg ræður nú ráðum sínum en svo gæti farið að félagið rifti samningi sínum við Kolbein. „Við erum að ræða þetta mál innanhúss,“ sagði Håkan Mild, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali við sænska miðilinn Fotbollskanalen.
Stjórn KSÍ ákvað að taka Kolbein út úr íslenska landsliðshópnum á sunnudaginn. Rúnar Már Sigurjónsson dró sig einnig út úr hópnum vegna meiðsla og persónulegra ástæðna.
Kolbeinn var einnig tekinn út úr landsliðinu í mars 2018 eftir að faðir Þórhildar Gyðu sendi Guðna og fleira starfsfólki KSÍ tölvupóst þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni með að Kolbeinn væri í landsliðshópnum.
Íslenska liðið var þá í Bandaríkjunum til að spila vináttulandsleiki í aðdraganda HM í Rússlandi. Kolbeinn var sendur heim en meiðsli voru sögð vera ástæða þess.