Verne Holdings Limited, eignarhaldsfélag Verne Global, er meðal annars í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og sjóðs í rekstri Stefnis sem er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða.
Í tilkynningu frá Digital 9 Infrastructure segir að gagnaverið á Ásbrú bjóði upp á mikla vaxtarmöguleika og njóti góðs af lágum meðalhita á Íslandi. Lítill kælikostnaður geri það að verkum að um sé að ræða eitt hagkvæmastu gagnaverum í heimi.
„Þetta og aðgengi að ódýrri, nær ótakmarkaðri orku gerir Verne Global kleift að bjóða stórvirka tölvuvinnslu á markaðsleiðandi verði.“
Um er að ræða fyrstu fjárfestingu sjóðsins í gagnaverum og hún sögð í samræmi við þá stefnu hans að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í rekstri gagnavera og annarra stafrænna innviða. Í tilkynningu segir að til viðbótar við kaupin á Verne Global skoði Digital 9 Infrastructure nú fleiri fjárfestingakosti í gagnaverum.
30 prósent árlegur vöxtur
Í fyrra var greint frá því að verja ætti 27 milljónum dala, jafnvirði 3,7 milljarða króna, til að stækka gagnaver Verne Global sem er staðsett á gamla varnarsvæðinu í Reykjanesbæ. Þá sagði Helgi Helgason, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Markaðinn að gagnaverið hafi að meðaltali vaxið um 30 prósent á ári frá árinu 2012.
Haft er eftir Dominic Ward, forstjóra Verne Global, í tilkynningu að félagið upplifi öran vöxt og aukið ákall eftir sjálfbærum lausnum fyrir stórvirka tölvuvinnslu. Kaup D9 geri stjórnendum kleift að hraða frekari vexti fyrirtækisins og bregðast betur við þörfum viðskiptavina.