Smokkaleikurinn fer í loftið á næstunni en hann er tilraun embættis landlæknis til að fræða ungt fólk um alvarleika kynsjúkdóma og gildi smokksins. Íslendingar setja reglulega met í tíðni kynsjúkdóma og hafa undanfarin ár verið sú þjóð sem á Evrópumetið í kynsjúkdómum miðað við höfðatölu.
„Af einhverjum ástæðum hefur verið dregið úr fræðslu þannig að smitin hafa aukist frá ári til árs og það er verið að reyna að stemma svolítið stigu við því núna með því að koma af stað fræðslu. Það eru allir af vilja gerðir og þetta er ein leiðin til þess, að nýta snjallsímatæknina til þess,“ segir Björn Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Gamatic, sem þróaði leikinn í samstarfi við Landlækni, Durex og Apótekarann.
Eins og sjá má er leikurinn þannig að maður á að grípa sáðfrumur og illskeyttnar veirur með smokkum. Reglulega hoppa upp á skjáinn misskemmtilegar staðreyndir um kynsjúkdóma og leikmenn hvattir til að nýta smokka til hins ítrasta.
„Inni í leiknum eru margvíslegir fróðleiksmolar sem fólk sér þegar það er að spila þar á meðal er mjög þekktur Íslendingur sem kemur syndandi inn á skjáinn og talar skemmtilega hluti um mikilvægi smokksins,“ segir Björn.
Afleiðingar kynsjúkdóma geti verið grafalvarlegar.
„Það er einfaldlega óskynsamlegt að nota ekki getnaðarvarnir vegna þess að það er ekkert grín að fá eins og til dæmis klamydía getur gert kvenfólk, sumt, ófrjótt. Sýfilis ef það fær að vaxa með þeim hætti að þú færð ekki meðhöndlun getur það haft býsna alvarlegar afleiðingar.“