Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir að um sé að ræða leifar fellibylsins Larry sem fór yfir Karíbahafseyjar í byrjun mánaðar og norður austurströnd Bandaríkjanna og Kanada.
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Suðausturland og Miðhálendi og taka gildi klukkan 18 á sunnudag og gilda til klukkan 11 á mánudagsmorgun.
„Þessu fylgir svolítill vindstrengur og talsverð úrkoma. Við höfum alveg séð meiri vind síðustu daga en reiknum þarna með 15 til 20 metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu og upp í storm í öðrum þeim landshlutum þar sem viðvaranir hafa verið gefnar út,“ segir Eiríkur Örn.
Hann segir að það verði „ágætis vindur“, en að áhrifin gætu orðið meiri vegna árstímans, þar sem margir séu enn með garðhúsgögn og trampólín úti í garði.