„Þetta var fyrsti skóladagurinn ársins hjá sonum okkar, sem voru 6 og 8 ára á þessum tíma, svo við hjónin fylgdum þeim í skólann. Þaðan fór ég með leigubíl niður 5th Avenue á leið á skrifstofuna mína í Rockefeller Center.“
Einmitt þar í leigubílnum heyrði Ólafur í útvarpinu af fyrri flugvélinni.
„Við héldum að þetta hefði verið einhver útsýnisflugvél – einhver rella – sem hefði fyrir slysni farið í turninn. Svo var ég kominn upp á skrifstofu þegar seinni flugvélin fór á syðri turninn. Þaðan horfði ég niður eftir eyjunni, fylgdist með turnunum og sá þá falla.“
Ólafur segir að forgangsatriði hafi verið að ganga úr skugga um að starfsfólk fyrirtækisins væri óhult. Meðal annars var starfsfólk fréttastofu CNN að störfum í hringiðunni í kringum World Trade Center.
Mikil óvissa og viðbúnaður á götum úti
Hann bætir því við að mikil óvissa hafi einkennt þennan dag, þar sem enginn vissi hvað væri framundan eða hvort fleiri árásir væru í vændum. Á göngu hans heim að loknum vinnudegi hafi loftið verið lævi blandið. Hermenn og skriðdrekar á götum úti og andrúmsloftið að kvöldi dags í hrópandi mótsögn við morguninn.
Ólafur segir að atburðirnir þennan dag hafi umturnað lífi flestra borgarbúa næstu vikur og mánuði á eftir.
„Það var þessi endalausi ótti um að eitthvað meira væri í gangi,“ segir hann „Fólk var að koma sér upp bátum við Hudson-ána og í Austuránni ef það þyrfti að flýja borgina snögglega. Það var svona ógnarástand og fólk var lengi að jafna sig, en borgin skríður saman eins og hún gerir yfirleitt. En það eimir enn eftir af þessu, sérstaklega á þessum árstíma. Þetta hafði auðvitað gríðarleg áhrif á sálarlífið hér í borginni.“
Alltaf ofarlega í huga New York-búa
Ólafur segist aðspurður ekki viss um að stemmningin sé nokkuð frábrugðin einmitt núna, þegar tuttugu ár eru frá hörmungunum, frá því sem verið hefur fyrri ár. Borgin sé að nú jafna sig á farsótt síðasta árs, en atburðirnir 11. september lifi ávallt með New York-búum.
„Þetta er fólki alltaf ofarlega í huga. Þetta er einn af þessum bautasteinum á lífsleiðinni sem fólk staldrar við.“