Spænski fjölmiðillinn Diario de Avisos greinir frá því að konurnar þrjár sem eru allar á fimmtugsaldri hafi verið fluttar á sjúkrahús eftir að tréð féll á þær. Þær séu mismikið slasaðar, ein alvarlega en hinar tvær minna.
Í frétt spænska fjölmiðilsins er hvergi minnst á þjóðerni kvennanna en í svari við fyrirspurn fréttastofu staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að borgaraþjónustu ráðuneytisins sé kunnugt um að þrjár íslenskar konur hafi slasast á Tenerife, en að ekki hafi verið óskað eftir aðstoð þjónustunnar.