Fyrsti hnúðlaxinn veiddist á Íslandi í Hítará árið 1960. Áratugina á eftir veiddust einn og einn slíkur lax í ám landsins. En síðustu ár hefur orðið breyting á þessu.
„Við höfum verið að sjá mjög mikla aukningu á hnúðlaxi í ám, sérstaklega á þessu ári. Hann hefur verið, fram til þessa, flækingur þannig það hafa verið svona einn og einn hnúðlax á ferðinni,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun.

Veldisvöxtur með meiru
„Svo kom aukning 2015, aftur 2017, 2019 og svo núna 2021 þá getum við kannski talað um að það sé sprenging í þessari tegund.“
Aukningin er gríðarleg milli ára. Hnúðlaxastofninn sem hefur náð sér á strik hérlendis er þannig gerður að hann kemur í árnar á tveggja ára fresti.
Árið 2015 náðust 9 hnúðlaxar á Íslandi, árið 2017 voru þeir 54 og árið 2019 voru skráðir 232 hnúðlaxar á Íslandi.

Guðni segir ljóst að í ár megi búast við meira en tvöföldun á þessum tölum og að hér muni veiðast nokkur hundruð hnúðlaxar.
Framandi og ágeng tegund
En hvaðan koma þessar hálfófrýnilegu skepnur?
„Rússar fluttu hnúðlax frá Kyrrahafi og byrjuðu með sleppingar á honum við Hvítahaf og Kólaskaga fyrir 1960,“ segir Guðni.

Rússar fóru síðan aftur á níunda áratugnum enn norðar til að sækja annan stofn hnúðlaxa til sleppinga. Og sá stofn virðist betur aðlagaður að lífinu í Atlantshafinu.
En þurfum við að hafa áhyggjur af hnúðlaxinum?
„Klárlega. Þetta er náttúrulega framandi tegund og væntanlega ágeng. En þegar þeir fara að koma í mjög miklu magni þá hafa þeir náttúrulega áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika . Og eins er það að ef að þeir eru í mjög miklu magni að drepast, þá geta þeir haft áhrif á vatnsgæði við árnar,“ segir Guðni.
