Fótbolti

Glódís Perla: Þurfum að vera með augu í hnakkanum á henni allan tímann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vivianne Miedema fagnar einu marka sinna með hollenska landsliðinu.
Vivianne Miedema fagnar einu marka sinna með hollenska landsliðinu. EFE/TOLGA BOZOGLU

Ein af bestu knattspyrnukonum heims mætir á Laugardalsvöllinn í næstu viku en þar eru við að tala um hina hollensku Vivianne Miedema.

Miedema hefur skorað 83 mörk í 100 landsleikjum fyrir Holland og hún hefur skorað 102 í 105 leikjum fyrir Arsenal í öllum keppnum síðan að hún fór til Englands frá Bayern München árið 2017.

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska landsliðsins, fær það krefjandi hlutverk að gæta Vivianne Miedema í fyrsta leik Íslands í undankeppni HM 2023.

Miedema hefur eins og Glódís Perla sjálf verið stórstjarna í sínum landsliði frá unga aldri og báðar eru komnar með mikla reynslu þrátt fyrir að vera enn bara 25 og 26 ára gamlar.

Glódís Perla var á fjarfundi með íslenskum blaðamönnum í gær og þar barst talið meðal annars að hinni mögnuðu Miedema.

„Hún er frábær og þarna er á ferðinni geggjaður leikmaður,“ sagði Glódís Perla.

„Við þurfum að vera með augu í hnakkanum á henni allan tímann. Það þarf að passa upp á það að hún komist ekki í boltann pressulaus,“ sagði Glódís en hún vakti þó líka athygli að þetta hollenska lið er ekki bara Vivianne Miedema.

„Það eru margar góðar í þessu liði, bæði á miðjunni sem og á köntunum. Þetta er verðugt verkefni fyrir okkur,“ sagði Glódís.

Miedema er búin að skora 13 mörk í 9 landsleikjum á árinu 2021 er auk þess sem 8 mörk í fyrstu 6 leikjum tímabilsins með Arsenal. Það fer því ekkert á milli mála að hún mætir sjóðandi heit í Laugardalinn í næstu viku.


Tengdar fréttir

Gunnhildur Yrsa: Alltaf gaman að mæta þeim bestu

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, kvartar ekkert yfir því að þurfa að spila fyrsta leikinn í undankeppni HM á móti einu allra besta liði heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×