Fótbolti

„Erum mennskir og getum stundum horft framhjá lögunum“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Gunnlaugsson fagnaði af mikilli innlifun þegar Víkingar komust yfir enda Íslandsmeistaratitill í húfi.
Arnar Gunnlaugsson fagnaði af mikilli innlifun þegar Víkingar komust yfir enda Íslandsmeistaratitill í húfi. Stöð 2 Sport

„Þetta er það sem að maður myndi kalla ástríðu,“ sagði Þorvaldur Árnason dómari þegar hann útskýrði af hverju hann taldi ekki rétt að refsa Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings, fyrir að hlaupa inn á völlinn og fagna sigurmarkinu gegn KR í Pepsi Max-deildinni á sunnudag.

Arnar hljóp langt inn á völlinn í mikilli geðshræringu eftir að varamaðurinn Helgi Guðjónsson skallaði boltann í netið og kom Víking í 2-1 þegar örfáar mínútur voru eftir.

„Við erum nú mennskir og getum stundum horft framhjá lögunum,“ sagði Þorvaldur í viðtali við Rikka G í gær.

„Þetta er það sem maður myndi kalla ástríðu, öfugt við það sem við horfðum á í fyrra atvikinu [þegar upp úr sauð og tveir fengu rautt spjald í lok leiks]. Við lokum öðru auganu fyrir þessu. Menn eru að fagna og það er mikið undir. Við verðum að leyfa mönnum það,“ sagði Þorvaldur.

Klippa: Þorvaldur um fagnaðarlæti Arnars

Eftir markið var enn tími fyrir afar mikla dramatík í Vesturbænum því upp úr sauð á hinum enda vallarins, vítaspyrna var dæmd og rauða spjaldið fór á endanum þrisvar á loft eins og rakið hefur verið hér á Vísi.

Á endanum vann þó Víkingur 2-1 sigur sem þýðir að liðið er á toppi Pepsi Max-deildarinnar fyrir lokaumferðina á laugardag og getur því orðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×