„Ég vissi alveg hvað Valur gæti. Ég hef séð síðustu þrjá leiki Vals og það var ekkert sem kom mér á óvart.“
„Þegar við tókum hádegismat, voru einhverjir strákar í liðinu farnir að skoða bari til að fara á eftir leik. Ég reif af þeim símann og benti þeim á að Valur er mjög gott lið, sem við lærðum í beinni. Við unnum þó leikinn og það telur,“ sagði Bjarki Már Elísson eftir leik.
Valur átti góðan kafla í fyrri hálfleik og komust yfir 11-6 þegar Florian Kehrmann, þjálfari Lemgo, tók leikhlé.
„Mér fannst við linir á báðum endum vallarins. Við vorum ekki að hjálpa í vörninni, töpuðum maður á mann allt of auðveldlega og þorðum lítið að skjóta í sókn.“
Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, fékk beint rautt spjald fyrir að klessa á Bjarka Má þegar Bjarki flaug inn í teig.
„Ég er ekki viss um hvort þetta átti að vera rautt spjald. Ég fór í hraðaupphlaup, hoppa í gegn og fékk einhvern líkamspart af honum í nefið á mér. Ég er ekki viss hvar hann stóð og hvar ég stóð, þannig ég á erfitt að segja til um hvort þetta hefði átt að vera rautt spjald.“
„Í hita leiksins hreytti ég aðeins í Björgvin sem var ekki rétt að gera. Það eru miklar tilfinningar í þessu. Það er skrítið að koma heim og spila verandi að tapa. Við erum sáttir ég elska Björgvin Pál.“
Eftir dapran fyrri hálfleik náði Lemgo að snúa við blaðinu í seinni hálfleik og var Bjarka létt að hafa ekki tapað leiknum.
„Sem betur fer náðum við að vinna leikinn. Það hefði verið hrikalegt að mæta þeim í Þýskalandi með tap á bakinu.“
„Ég ætla síðan að sjá til hvort ég gefi strákunum í liðinu leyfi á að fara á barinn í kvöld,“ sagði Bjarki Már léttur að lokum.