Khadija Okkarou var aðeins sautján ára þegar ofbeldið átti sér stað en hún greindi frá því í myndbandi sem birtist á netinu árið 2018. Myndbandið vakti mikla athygli á sínum tíma, enda heldur óvenjulegt í landinu sem er mjög íhaldssamt.
Þar greindi hún frá því að meðlimir í „hættulegu glæpagengi“ hafi rænt henni og haldið henni fanginni í tvo mánuði. Á meðan hafi þeir nauðgað og beitt hana grimmu ofbeldi. Í myndbandinu sýndi hún jafnframt ljót „ör eftir sígarettur og húðflúr sem hún sagði mennina hafa skorið í líkama sinn.
Lögmaður Okkarou, Ibrahim Hachane, sagði í samtali við AFP að hinir ákærðu hafi verið sakfelldir fyrir ýmsa liði, þar á meðal mannrán, frelsissviptingu og nauðgun.
Tveir menn til viðbótar voru dæmdir í tveggja ára fangelsi og eitt ár í skilorðsbundnu fangelsi. Þá hafa mennirnir allir verið dæmdir til að greiða Okkarou 200 þúsund dírhöm, eða rúmar 2 milljónir íslenskra króna, í miskabætur.
Hachane sagðist ekki sáttur með dóminn, hann væri of mildur, og nefndi sem dæmi að séu menn dæmdir fyrir smygl sé þyngsta refsing þrjátíu ár. Hachane hyggst áfrýja dómnum.