Sara sagði frá því á samfélagsmiðlum í gærkvöldi að nú séu aðeins þrjár vikur í að hún fái græna ljósið sem hún er að bíða eftir. Þetta græna ljós mun gefa henni leyfi til að fara að æfa ólympískar lyftingar af fullum krafti.
Eftir það styttist í það að Sara mæti aftur til leiks eftir að hafa sigrast á mjög erfiðum hnémeiðslum.
Sara sleit krossband í mars eða aðeins nokkrum dögum áður en tímabilið hófst. Meiðslin þýddu að hún fór á skurðarborðið í apríl og var ekkert með á 2021 tímabilinu.
Sara segir að næstu vikurnar muni hún fara betur yfir hreyfingar sínar með lóðin til að fínpússa hluti og bæta sig áður en átökin byrja á ný. Hér fyrir neðan má sjá myndbönd með æfingum Söru í gær.
Sara var ein af þeim tuttugu bestu CrossFit konum heims sem fékk boð um að taka þátt í CrossFit mótinu í Dúbaí í desember en þar hefur hún titil að verja síðan að mótið fór síðast fram árið 2019.
Hvort Sara verði klár í slaginn í desember, átta mánuðum eftir krossbandsaðgerð, verður að koma í ljós.
Það tekur tíma og þolinmæði að komast aftur í hóp hraustustu CrossFit kvenna heims en Dúbaí mótið hefur alltaf verið ofarlega á vinsældalistanum hjá Söru. Það væri því gaman að sjá hana koma til baka á keppnisgólfið í jólamánuðinum.