Þúsund íbúum bæjanna Tajuya, Tacande de Abajo og Tacande de Arriba var í dag gert að yfirgefa heimili sín vegna aukinnar virkni í eldfjallinu. Frá upphafi eldgossins á sunnudag hafa meira en 350 heimili orðið glóandi hrauninu að bráð. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Nú leggur þyggan reykmökk og ösku frá eldfjallinu sem teygir sig um fjóra kílómetra upp í loftið. Aflýsa þurfti fjölda flugferða í dag til og frá flugvellinum á eyjunni. Enginn hefur farist vegna gossins að því er best er vitað.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að ríkisstjórn landsins muni lýsa yfir neyðarástandi á eyjunni í næstu viku. Þá hafa yfirvöld á Kanaríeyjum þegar kynnt að fólk sem hafi misst heimili sín muni fá fjárhagsaðstoð.
Um 80 þúsund manns búa á eyjunni, sem er mikil eldfjallaeyja. Síðast gaus á eyjunni fyrir fimmtíu árum síðan, árið 1971. Jarðvísindamenn eru óvissir um hvað gosið muni vara lengi en fyrri gos á eyjunni hafa varað á milli 24 og 84 daga.