Bitar var gert að stöðva rannsókn sína á mánudag þegar fyrrverandi ráðherra, sem átti að mæta til skýrslutöku, kvartaði undan dómaranum og sagði hann ekki hlutlausan í málinu. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Enn hefur enginn verið gerður ábyrgur fyrir sprengingunni, sem varð í ágúst í fyrra, þar sem 219 féllu og meira en sjö þúsund særðust.
Eldur kviknaði á höfninni í Beirút sem varð þess valdur að 2.570 tonn af ammóníum nítrati, sem geymt var í vöruskemmu á hafnarsvæðinu í borginni, sprakk í loft upp. Efnin höfðu þá verið í vöruskemmunni frá árinu 2014 og höfðu embættismenn ítrekað verið varaðir við hættunni frá þeim.
Þetta er annað skiptið sem rannsókn á sprengingunni er stöðvuð eftir kvörtun hátt setts stjórnmálamanns, sem boðaður hefur verið til skýrslutöku.
Forveri Bitars í rannsókninni var látinn hætta fyrr á þessu ári eftir að hann var sakaður um vanrækslu af Hassan Diab, sem var forsætisráðherra Líbanon þegar sprengingin varð, Ali Hassan Khalil, þáverandi fjármálaráðherra, Youssef Finyanus og Ghazi Zaiter, fyrrverandi atvinnumálaráðherrum.
Mennirnir fjórir þvertóku allir fyrir að hafa gert nokkuð rangt og neituðu að mæta til skýrslutöku. Þá sökuðu þeir rannsakandann um að misnota vald sitt.
Bitar hefur nú verið sakaður um slíkt hið sama af öðrum stjórnmálamanni sem ekki vildi mæta til skýrslutöku, honum Nohad Machnouk fyrrverandi innanríkisráðherra, og mun Bitar þurfa að hætta rannsókn sinni þar til dómstólar taka ákvörðun um annað.
Ættingjar fórnarlamba segja að valdamiklir stjórnmálamenn komi nú í veg fyrir framgang réttvísinnar og beiti valdi sínu til að grafa undan Bitar.