Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að hættustig sé í gildi í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit vegna úrkomu og skriðuhættu.
Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma fimm bæi í Útkinn: Björg, Ófeigsstaði, Rangá, Engihlíð og Þóroddsstaði.
Mikil úrkoma hefur verið á Norðurlandi í dag og mun svo vera áfram til morguns. Veginum í Útkinn frá gatnamótum við Norðausturveg hefur verið lokað vegna aurskriðna sem þar hafa fallið.
Gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og á Ströndum vegna talsverðrar eða mikillar úrkomu. Gilda þær til miðnættis í nótt.
Þá hafa borist upplýsingar um grjóthrun á Siglufjarðarvegi í Almenningum vestan Siglufjarðar og eru vegfarendur beðnir um að hafa varann á séu þeir á leið þar um.