Erlent

Hlaut lífs­tíðar­dóm fyrir að nota eitur­slöngur til að myrða eigin­konu sína

Þorgils Jónsson skrifar
Maðurinn sem um ræðir sigaði tveimur eiturslöngum á konu sina, þar á meðal kóbraslöngu eins og sést hér á myndinni.
Maðurinn sem um ræðir sigaði tveimur eiturslöngum á konu sina, þar á meðal kóbraslöngu eins og sést hér á myndinni.

Maður frá Keralaríki í suðurhluta Indlands var fyrr í vikunni dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi fyrir að myrða eiginkonu sína á síðasta ári með því að siga á hana eiturslöngum.

Í frétt á vef Al Jazeera segir að umræddur maður, sem heitir Sooraj Kumar og er 28 ára gamall, hafi fyrst sigað höggormi á konu sína, Uthra, og var hún í tvo mánuði á sjúkrahúsi að jafna sig eftir eiturbitið.

Hún dvaldi svo á heimili foreldra sinna þar sem hún safnaði kröftum, en Kumar kastaði á hana kóbraslöngu þar sem hún svaf og lést hún af völdum bitsins í maí á síðasta ári.

Kumar var handtekinn á heimili sínu eftir ábendingar frá foreldrum hinnar látnu.

Hann neitaði sök, en símagögn leiddu í ljós að hann hafði verið í sambandi við slönguhöndlara og hafði einnig horft á myndbönd um slöngur áður en Uthra var myrt.

Sýnt þótti að Kumar staldraði við í herbergi konunnar eftir kóbraslöngubitið og kippti sér ekkert upp við það þegar tengdamóðir hans kallaði á hjálp.

Að sögn slönguhöndlara var mögulegt að Kumar hafi meitt slönguna til þess að fá hana til að bíta konu hans þar sem hún svaf.

Uthra var komin af efnafólki en eiginmaður hennar var í fjárkröggum. Hann hafði að sögn verið að þrýsta á um að hún kæmi með meiri fjármuni inn í hjónabandið og reyndi auk þess að sölsa undir sig eignir hennar að henni látinni.

Að sögn indverskra fréttamiðla voru ættingjar Kumars ákærðir fyrir samsæri, en gull í eigu hinnar látnu fannst grafið nálægt heimili hans.

Talsverð umræða hefur verið í Indlandi síðustu misseri um notkun eiturslangna í þeim tilgangi að drepa fólk, en erfitt þykir að sýna fram á ásetning í slíkum málum. Meðal annars hafa tveir einstaklingar verið sýknaðir í álíka málum á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×