„Við erum sannfærð um að við getum lokið metnaðarfullum málefnasamningi fyrir samsteypustjórn“, segir í tilkynningu frá flokkunum, en fréttastofa Deutsche Welle segir frá.
„Undirbúningsviðræðurnar einkenndust af trausti, virðingu og gagnkvæmri tillitssemi og við viljum halda því áfram.“
Græningjar og FDP þurfa að leggja viðræðurnar fyrir flokksfólk áður en vinnan milli flokkanna hefst fyrir alvöru en það samþykki ætti að geta legið fyrir innan nokkurra daga.
Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi 26. september þar sem SPD, með Olaf Scholz í fararbroddi, hlaut flest þingsæti og Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, næstflest.
Niðurstöður þýsku kosninganna:
- Sósíaldemókratar (SPD): 25,7%
- Kristilegir demókratar (CDU-CSU): 24,1%
- Græningjar: 14,8%
- Frjálslyndir (FDP) 11,5%
- Valkostur fyrir Þýskaland (AfD): 10,3%
- Vinstriflokkurinn: 4,9%
Í viðræðunum var talið líklegast að tekist yrðu efnahags- og skattamál, sem og loftslagsmál.
SPD og Græningjar styðja hóflegar skattahækkanir en Frjálslyndir demókratar eru slíkum hugmyndum mjög andsnúnir. Þá vilja Frjálslyndir demókratar treysta meira á hinn frjálsa markað þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum en hinir flokkarnir tveir sem vilja beita ríkisvaldinu í meiri mæli.
Nú virðast flokkarnir alla vegana hafa fundið samræðugrundvöll til að leysa úr ágreiningsmálum sín á milli.