Fólkið var að svara kalli Þriðju leiðarinnar, flokks sem er grunaður um tengsl við nýnasistahópa, og hafði hvatt fylgismenn sína til að koma í veg fyrir að flóttamenn kæmu yfir landamærin við bæinn Guben.
Að sögn lögreglu var fólkið vopnað, meðal annars kylfum og piparúða.
Aðgerðir lögreglu stóðu yfir á laugardagskvöld og sunnudagsmorgun en á laugardag höfðu tugir fólks safnast saman í bænum til að mótmæla „eftirliti“ öfgamannanna.
Þýska lögreglan hefur fjölgað lögreglumönnum við landamærin að Póllandi um 800 til að freista þess að ná stjórn á flæði flóttafólks sem freistar þess að komast inn í Evrópu um Belarús (Hvíta-Rússland).
Um 6.162 eru sagðir hafa komið ólöglega um landamærin á þessu ári.
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir í Þýskalandi en flokkarnir þrír sem ræða saman stefna að því að ljúka viðræðum í lok nóvember og útnefna Sósíaldemókratann Olaf Scholz kanslara í desember.
Mörg Evrópuríki hafa sakað stjórnvöld í Belarús um að hleypa flóttafólki um landamærin til að auka þrýsting á nágranna sína, í kjölfar þess að Evrópusambandið samþykkti refsiaðgerðir vegna umdeildra forsetakosninga í landinu í ágúst 2020.
Forsetinn Alexander Lukashenko hefur neitað þessu og sakar Evrópuríkin um að eiga sök á mannúðarkrísu eftir að flóttafólk var látið sitja fast á landamærum Belrús og Póllands.